Hugtök

Eintakagerð

Íslensku höfundalögin eru þannig upp byggð að í fyrsta kaflanum er að finna hver séu réttindi höfunda og rétthafa. Í öðrum kafla laganna má svo finna undantekningar frá þeim rétti.

Réttur höfunda skiptist svo í fjárhagslegan og ófjárhagslegan rétt (sæmdarétt).

Fjárhagslegi réttur höfunda kemur fram í 3. gr. höfundalaga en þar segir:

[H]öfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að birta það í upphaflegri mynd eða breyttri, í þýðingu og öðrum aðlögunum.”

Það að höfundur eigi einkarétt til eintakagerðar þýðir að öllum öðrum en höfundi verks er óheimilt að gera eintök af verkum hans nema búið er að semja við hann um annað eða undantekning sé í lögum. Einkaréttur höfundar til eintakagerða nær til allra gerða eintaka af verki hans, hvort sem um er að ræða eintak af hluta verksins, aðlagað verk eða allt verkið. Sem dæmi má taka þegar tónlist er færð af geisladisk yfir á mp3-spilara en við slíka athöfn myndast eintak af verkinu og þá er verið að tala um eintakagerð.

Hugtakið eintakagerð nær ekki aðeins yfir þegar höfundur setur verk sitt á efni í fyrsta sinn heldur til allrar síðari eftirgerðar. Skiptir þá ekki máli hvort sé gert eintak af upphaflega verkinu eða eftirgerð þess.

Mikilvægt er að hafa í huga að þó að höfundur hafi gert eintak af verkinu sínu og svo selt það eða jafnvel gefið þá á höfundurinn ennþá einkaréttinn til eintakagerðar en ekki eigandinn af verkinu eða afriti af verkinu.

Hugtakið eintakagerð í 3. gr. höfundalaga nær yfir þau eintök sem myndast á netinu, t.d. þegar verið er að hlaða niður eða upp efni.

Birting

Birting – Það að höfundur eigi einkarétt á birtingu verka sinna þýðir að öllum öðrum en höfundi verks er óheimilt að birta verk hans nema búið sé að semja við hann um annað eða undantekning sé í lögum.

Höfundalög gera engan greinarmun á upphaflegri birtingu á verki eða síðari birtingu og því á höfundur einkarétt á allri birtingu á verki sínu.

Verk telst birt þegar það hefur verið flutt, sýnt eða gefið út opinberlega þannig að almenningur eigi frjálsan aðgang að hvort heldur sem greiða þurfi fyrir aðgang eður eigi. Aftur á móti telst það ekki opinber birting þegar slíkt fer fram inni á heimilum manna, fyrir fjölskyldu eða vinum. Til að ákveða hvað telst opinber birting er litið til meðalhófs, sanngirnis og eðlis. Í 2. gr. höfundalaga er gert ráð fyrir þrenns konar birtingu verndaðra verka:

Útgáfa

Telst verk gefið út þegar eintök af því eru með réttri heimild og í álitsverðum fjölda boðin opinberlega til sölu, láns eða leigu eða þeim er dreift til almennings með öðrum hætti.

Hér er meðal annars matsatriði hvenær um álitlegan fjölda eintaka er að ræða og fer það eftir tegund verks og ytri aðstæðum. Rétt er að hafa í huga að í litlum samfélögum eins og á Íslandi þarf færri eintök en í stærri samfélögum til að uppfylla þetta skilyrði laganna. Einnig skal líta til þess hvers konar verk sé að ræða, hvort það takmarkaður hópur manna sem mun hafa not af verkinu eða er verkið ætlað öllum almenningi.

Opinber flutningur

Það teljist sjálfstæð opinber birting þegar útvarpsflutningi verndaðra verka er dreift til almennings með hátalara eða á annan hátt.

Þó að einungis komi fram útvarpsflutningur í málsgreininni þá kemur síðar fram í lögunum að þegar verið er að ræða um flutning og birtingu í lögunum þá er líka verið að ræða um birtingu/flutningi í hljóðvarpi og sjónvarpi, nema annað sé tekið fram.

Sem dæmi sé tekið um opinberan flutning má nefna flutning tónlistar í verslunum, upplestur verks í útvarpi, útsendingu í sjónvarpi eða útvarpi á opinberum stöðum svo sem búðum,veitingarhúsum og þess háttar. Það skiptir ekki máli hvað margir náðu að sjá eða heyra flutninginn heldur hvort að almenningur hafi haft aðgang að þeim stað þar sem flutningurinn fór fram.

Það sem fellur utan við þennan rétt höfundar er flutningur sem er algerlega á einkasviði notenda verksins svo sem spilun tónlistar í heimahúsi, sjónvarpsútsending í stofunni, upplestur úr dagblaði fyrir fjölskyldumeðlimi og þess háttar. Fyrir utan kjarnafjölskylduna mega frænkur og frændur, tengdafólk, nágrannar og svo framvegis vera til staðar án þess að flutningurinn teljist vera opinber.

Sýning

Nú er verk flutt eða sýnt á atvinnustöðum, þar sem 10 menn vinna eða fleiri, telst það þá opinber birting.

Sýning eintaka er hluti birtingarhugtaksins í lögunum. Þó svo að tekið sé fram í lögunum að miða eigi við 10 manns eða fleiri á vinnustað þá er það ekki algilt heldur eigi að líta til meðalhófsreglu. Þannig að í sumum tilvikum sé um að ræða opinbera sýningu á verki þó svo að starfsmenn séu færri en 10 manns.

Þá verður að hafa í huga að ekki skiptir máli hvort að verkið sé flutt af listflytjanda þar á staðnum, diskur, lagalisti eða þess háttar spilað, eða útvarpsflutning sé dreift til áheyrenda venjulega með hátalarakerfi.

Algengasta not á sýningu eintaka er þegar eintak af listaverki er haft til sýningar á listasafni, galleríum og þess háttar. Eintak af verki getur á þann hátt einnig verið til sýningar jafnvel þótt að sýningin samanstandi af afriti af upphaflega verkinu. Einnig er átt við dagblöð á kaffihúsum, bækur til lestrar á bókasöfnum og þess háttar. Þessi tegund birtingar á einungis við um áþreifanleg eintök sem eru aðgengileg almenningi.